Færri tilkynningar til barnaverndaryfirvalda

Verulega fækkun barnaverndarmála sem koma inn á borð félagsmálastjóra í uppsveitum Árnessýslu og Flóahreppi má rekja til manneklu hjá lögreglunni í sýslunni.

Þetta er mat Nönnu Mjallar Atladóttur félagsmálastjóra á svæðinu. Mál sem tengjast afskiptum lögreglu af börnum undir 18 ára eru tilkynnt til félagsmálastjóra en í mörgum tilvikum eru það mál er varða ofbeldi á heimilum, vanrækslu, áfengis og fíkniefnamál og að börn skili sér ekki heim.

Að sögn Nönnu voru tilkynningar lögreglu til hennar embættis alls 27 árið 2008, þær voru nítján ári síðar, en aðeins sjö í fyrra. Dregur Nanna þá ályktun að samdrátturinn eigi sér stað á sama tíma og dregið sé úr fjárveitingum til lögreglunnar.

Hún segir að fulltrúar lögregl­unnar sem hún hafi rætt málið við séu sammála henni um það sé megin ástæðan fyrir fækkun tilkynninga vegna barnaverndarmála.

Aðspurður um þessi mál segir Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður á Selfossi að lögreglan tilkynni um barnaverndar­mál til félagsmálayfirvalda þegar þau mál ber á borð hennar. Skýringar á því að tilkynningum hafi fækkað séu ekki augljósar, en nærtækast er að færri mál komi til lögreglu úr upp­sveitunum.

Fyrri greinBlóðbankabíllinn á Selfossi í dag
Næsta greinJákvæðari niðurstaða ársreiknings