Færa námið nær nemendum

Í stað flugvélanna voru það ungir ökumenn sem „flugu“ um Bakkaflugvöll í Landeyjum fyrir skömmu í Ökuskóla Ö3 á vegum Ökukennarafélagsins.

Námskeiðið felst í því að undirbúa nemendur í að aka við mismunandi aksturskilyrði, eins og hálku og vondum bremsuskilyrðum. Allir ökunemendur þurfa að fara á slíkt forvarnarnámskeið, bæði bóklegt inni í húsi sem komið er fyrir á flutningabíl og á brautinni þar sem verklega kennslan fer fram í sérútbúinni bifreið.

Með búnaðinum er hægt að láta bílinn skransa til, renna útaf og snarsnúast ef hratt er ekið í „hálkunni“. Tilgangurinn er að fá nemendurnar til að uppgvöta hvaða hraði er öruggur miðað við mismunandi aðstæður.

„Krakkarnir hafa gaman af þessu, finnst þetta merkilegt. Í forvarnarhúsinu fara þau svo í veltibílinn, og upplifa þar gildi bílbeltanna. Svo er bílinn stöðvaður á hvolfi og þau þurfa að ráða úr því hvernig maður losar sig úr beltinu,“ segir Kristinn Bárðarson, ökukennari. Hann segir muna miklu að hafa slíka aðstöðu til kennslunnar. Heppilegt sé að notast við fluvellina, þar sem er nóg pláss.

„Þetta er í raun bylting,“ segir Kristinn. Ökukennarafélagið setti upp aðstöðuna ásamt Sjóvá en kennslan fer fram á nokkrum stöðum á landinu.

Kennslan á Bakkaflugvelli er fyrir nemendur úr Vestmannaeyjum, Rangárvallasýslu og Vestur- Skaftafellssýslu. Að sögn Kristins, var þetta í fyrsta sinn sem slíkt var reynt á Bakkavelli, og fer það svo eftir þörfinni hversu oft boðið verður upp á kennsluna á þessum stað.

Fyrri greinDagbók lögreglu: Þrír undir áhrifum fíkniefna
Næsta greinNýjungar í Álfa- og tröllasafninu