Færðu Heklu Björgu, Alex Erni og fjölskyldum þeirra góðar gjafir

Sjúkraflutningamenn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands heimsóttu í dag tvær fjölskyldur og færðu þeim peningagjöf sem er ágóði af árlegri dagatalssölu sjúkraflutningamannanna.

Fyrst lá leiðin til Þorlákshafnar þar sem bankað var uppá hjá Heklu Björgu Jónsdóttur, 14 ára gamalli dóttur Önnu Kristínar Gunnarsdóttur og Jóns Haraldssonar. Þegar hún fæddist kom í ljós að hún var með hjartagalla sem heitir Truncus arteriosus, eða sameiginlegur slagæðastofn. Tveggja daga gömul fór hún í aðgerð í Boston sem heppnaðist afar vel. Þá var sett í hana gjafaæð sem er tenging frá hjarta að lungnaslagæð. Þegar Hekla Björg var 6 mánaða fór hún aftur til Boston þar sem æðin var blásin út og sett stoðnet í hana. Ellefu ára fór Hekla Björg enn til Boston þar sem tengingunni var skipt út ásamt loku og ósæðar hjartalokan hennar löguð.

Þetta gekk vonum framar og Hekla var dugleg að jafna sig. Í nóvember síðastliðnum fékk Hekla lungnabólgu og í læknisskoðun í byrjun desember kom í ljós að æðin hafði þrengst aftur vegna sýkingar sem er mjög sjaldgæft. Hún flaug því í skyndi til Boston þar sem sýkingin var meðhöndluð og í kjölfarið var skipt um gjafaæð og loku. Ferðin gekk vel, Hekla var stöðug allan tímann og fjölskyldan kom heim aftur í lok síðustu viku.

Eftir heimsóknina í Þorlákshöfn heimsóttu sjúkraflutningamennirnir Alex Erni, 8 ára pilt á Selfossi, son Guðnýjar Láru Gunnarsdóttur og Stefáns Viðarssonar. Alex Ernir fæddist mjög fatlaður, með klofinn hrygg, vatnshöfuð, klumpufætur og úr mjaðmalið. Hann fór í margar aðgerðir fyrstu árin, strax frá fæðingu. Meðal annars var reynt að laga mjaðmaliðina með því að setja hann í fast fótagifs sem hann var í meira og minna í marga mánuði fastur með glennta fætur. Þessar æfingar tókust þó ekki og hann er enn úr mjaðmalið. Fleiri aðgerðir voru gerðar á fótum, t.d. var skorið á hásinarnar til að rétta úr fótum.

Hann þarf mikla aðstoð dags daglega, sjúkraþjálfun, fylgd í sund og leikfimi, klósettferðir o.s.frv. Einnig þarf hann talsverða aðstoð heima við og er með stuðningsfulltrúa og fleiri þar til aðstoðar. Alex fer allar sínar ferðir um á hjólastól en er alla jafna mjög orkumikill, duglegur og glaður strákur sem gerir allt sem honum dettur í hug og ætlar hann sér að verða sterkasti fatlaði maður heims og töframaður.

Fjölskyldan tók sjúkraflutningamönnunum fagnandi og ætla þau að nota styrkinn til þess að helluleggja eða malbika innkeyrsluna við heimili sitt svo að Alex Ernir eigi auðveldara með að fara um í hjólastólnum.

Báðar fjölskyldurnar fengu 250 þúsund króna peningagjöf frá sjúkraflutningamönnunum ásamt gjafabréfum frá Bylgjum og börtum, Nettó, Bónus og Tryggvaskála auk flugelda frá Björgunarfélagi Árborgar og allir fjölskyldumeðlimir fengu glaðning frá Íslandsbanka.

„Þetta er alltaf jafn gefandi og skemmtilegur dagur fyrir okkur. Það er virkilega ánægjulegt að geta lagt hönd á plóg hjá þessum fjölskyldum,“ sagði Stefán Pétursson, formaður félags sjúkraflutningamanna í samtali við sunnlenska.is. „Lykillinn að þessu er auðvitað salan á dagatalinu sem gengur alltaf jafn vel og við þökkum fólki kærlega fyrir viðtökurnar. Eins viljum við þakka þeim fyrirtækjum sem aðstoðuðu okkur og lögðu til gjafir en allir þessir aðilar voru meira en tilbúnir að leggja okkur lið,“ sagði Stefán.


Alex Ernir ásamt sjúkraflutningamönnunum Einari Erni og Stefáni. Fyrir aftan eru systkini Alex, Sædís Birta Stefánsdóttir, Ingimundur Bjarni Roy Simonarson og foreldrarnir Stefán Viðarsson og Guðný Lára Gunnarsdóttir með Eldar Mána 9 mánaða í fanginu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Systkini Heklu Bjargar, Védís Kolka, Gunnar Atli og Helgi Leó fengu að skoða sjúkrabílinn og leiddist það ekki. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinFólki bjargað úr þremur rútum á Skeiðarársandi
Næsta greinGleðileg jól!