Færðu Heiðari Má peningagjöf

Í gær afhenti Félag sjúkraflutningamanna í Árnessýslu 4 mánaða gömlum Selfyssingi, Heiðari Má, peningagjöf sem er hluti af söluágóða árlegs dagatals sjúkraflutningamannanna.

Sjúkraflutningamenn á Selfossi hafa á undanförnum árum styrkt fjölskyldur veikra barna með peningagjöf um jólahátíðina. Styrkveitingin í ár fór fram á Barnaspítala Hringsins en þar hafa Heiðar Már og móðir hans dvalið um jólin.

Saga Heiðars er mikið kraftaverk en hann fæddist 25. ágúst sl. á sjúkrahúsinu á Selfossi eftir aðeins 26 vikna meðgöngu. Hann var aðeins 780 grömm að þyngd eða rúmar 3 merkur

Heiðar var fluttur með sjúkrabifreið til Reykjavíkur þar sem hann barðist hetjulega fyrir lífi sínu næstu mánuði. Hann útskrifast síðan 30. nóvember síðastliðinn, einum degi fyrir áætlaðan fæðingardag sinn.

Heiðar litli stoppaði stutt heima og var lagður inn á barnaspítalann nú í desember vegna veikinda.

„Saga Heiðars snart okkur sjúkraflutningamennina mjög, enda algjört kraftaverk að ekki skildi hafa farið verr þegar við fluttum hann með hraði til Reykjavíkur á fæðingardaginn,” sagði Hrönn Arnardóttir, sjúkraflutningamaður, í samtali við sunnlenska.is. „Við óskum honum og fjölskyldu hans alls hins besta á nýju ári og vonum að styrkurinn komi þeim til góða.”

Fyrri greinLeitað að manni í Grímsnesinu
Næsta greinSluppu með minniháttar meiðsli