Færði HSu 2,5 milljón króna gjöf

Nýverið hélt stjórn Arion banka stjórnarfund á Suðurlandi. Auk þess að sitja stjórnarfund, heimsóttu stjórnarmenn bankans nokkur fyrirtæki á svæðinu og haldin var móttaka með viðskiptavinum í útibúi bankans á Hellu.

Í móttökunni færðu Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, og Sædís Íva Elíasdóttir, svæðistjóri Arion banka á Suðurlandi, Heilbrigðisstofnun Suðurlands tvær og hálfa milljón króna að gjöf til tækjakaupa. Fjármunirnir verða nýttir til kaupa á nýrnaskilunartæki sem lið í eflingu göngudeildar lyflækninga. Við gjöfinni tóku Magnús Skúlason forstjóri Heilbrigðistofnunar Suðurlands og Ester Óskarsdóttir, skrifstofustjóri stofnunarinnar.

„Við hjá Arion banka leggjum áherslu á að vera virk í því samfélagi sem við störfum í. Það er okkur mikil ánægja að geta stutt við Heilbrigðisstofnun Suðurlands og kaup stofnunarinnar á nýju nýrnaskilunartæki og leggja þannig okkar að mörkum til eflingar göngudeildar lyflækninga hjá stofnuninni,“ sagði Sædís Íva Elíasdóttir, svæðisstjóri Arion, í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri greinLæsti lykla og barn inni í bíl
Næsta greinLeiklist: Týndur demantur á sviðinu á Selfossi