Fækkar um þrjá starfsmenn á Selfossi

Starfsemi þjónustuvers Landsbankans á Selfossi hefur verið hætt frá og með deginum í dag. Starfsmönnum fækkar um þrjá við þetta.

Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að verið sé að vinna að breytingum sem leiða munu til hagræðingar og einföldunar í rekstri. Þær breytingar séu meðal annars svar við þróun sem á sér stað í bankastarfsemi, þar sem viðskiptavinir kjósa í síauknum mæli að nýta sér rafræn samskipti við banka.

Að sögn Kristjáns Kristjánssonar, upplýsingafulltrúa Landsbankans, hefur verið rekið einskonar útibú frá þjónustveri bankans á efri hæðinni í útibúinu á Selfossi.

“Sú starfsemi verður lögð niður nú, enda hefur dregið verulega úr henni síðustu árin, m.a. vegna þess að starfsmenn hafa farið á eftirlaun,” segir Kristján. Hann bætir við að þjónustan í útibúinu á Selfossi verði óbreytt en þrír starfsmenn sem störfuðu í þjónustuverinu á efri hæðinni muni hætta störfum.

Fyrri greinStracta hótel með rautt nef
Næsta greinSýningarstjóraspjall á næstsíðasta sýningardegi