Færri skjálftar en óleystur vandi

,,Við teljum að það standi áfram upp á Orkuveitu Reykjavíkur að finna lausn á þessum vanda,” segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðis.

Bæjarráð Hveragerðis hefur samþykkt að tilnefna aðila í stýrihóp óháðra sérfræðinga sem ætlað er að afmarka og undirbúa verkefni til að vinna úr og greina atburði í tengslum við niðurdælingu á Hellisheiði.

Heldur hefur dregið úr jarðskjálftavirkni að undanförnu en Aldís sagði að það breytti ekki þeim grundvallaratriðum sem hér væri um að ræða, annars vegar að öryggis væri gætt og að samráð væri haft við yfirvöld í Hveragerði. Aldís sagði að bærinn yrði að meta hvaða möguleika hann hefði í framhaldi málsins en boltinn væri núna hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Bæjarráð Hveragerðis fjallaði fyrir stuttu um upplýsingar frá OR vegna erindis Hveragerðisbæjar vegna niðurdælingar affallsvatns frá Hellisheiðarvirkjun. Bæjaráð þakkar greinargóð svör en undrast um leið þá staðreynd sem í bréfinu kemur fram að ekki skulihafa verið gerð grein fyrir því í umhverfismati fyrir Hellisheiðar- og Hverahlíðarvirkjun að jarðhræringar gætu fylgt niðurdælingu affallsvatns virkjana.

Slíkt hefðu jarðfræðingar átt að vita enda eru þessi áhrif alþekkt erlendis. Ef þessum upplýsingum hefur vísvitandi verið leynt er slíkt afar ámælisvert segir í samþykkt bæjarráðs.