Færri kynferðisbrot til rannsóknar

„Árið 2015 komu inn til rannsóknar hjá okkur tuttugu og sjö kynferðisbrot. Þessi mál eru í forgangi. Um þessar mundir eru sextán kynferðisbrot í rannsókn.“

Þetta segir Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurlandi spurður um fjölda kynferðisafbrota hjá embættinu á síðasta ári.

Þetta er nokkur fækkun á milli ára því árið 2014 komu fjörutíu kynferðismál til rannsóknar og 2013 voru þau þrjátíu og níu talsins.

Þorgrímur Óli segir mjög mikið álag á rannsóknardeildinni vegna ýmissa annarra mála, svo sem slysfara og heimilisofbeldismála. „Af þeim sökum hefur hraði rannsóknar kynferðismála tekið heldur meiri tíma en ásættanlegt er,“ segir hann.