Fækkað í yfirstjórn Árborgar

Nýr meirihluti sjálfstæðismanna í Sveitarfélaginu Árborg hefur ákveðið að leggja niður þrjár stöður embættismanna í sparnaðarskyni.

Þetta eru stöður verkefnisstjóra íþrótta-, forvarna- og menningarmála sem Andrés Sigurvinsson gegnir og staða sérfræðings umhverfismála sem Katrín Georgsdóttir gegnir. Að auki er staða starfsmannastjóra lögð niður en starfsmannastjóri hefur ekki verið starfandi í sveitarfélaginu síðustu mánuði.

Þetta var samþykkt með tveimur atkvæðum Sjálfstæðismanna á síðasta fundi bæjarráðs en fulltrúi Samfylkingarinnar var á móti ákvörðuninni. Bæjarritara var falið að tilkynna starfsmönnunum um uppsagnirnar.