Fæðingarþunglyndi er ekki tabú

Nýverið stofnuðu þær Hugrún Vignisdóttir og Katrín Þrastardóttir á Selfossi félagið Samveru en markmið þess er að veita fræðslu og stuðning um fæðingarþunglyndi og kvíða fyrir verðandi og nýbakaðar mæður og aðstandendur þeirra.

Þær stöllur vinna þessa dagana að gerð bæklings sem allar konur í mæðravernd á Heilbrigðisstofnun Suðurlands fá afhentan.

Í bæklingnum verður yfirlit yfir helstu einkenni fæðingarþunglyndis og kvíða, bjargráð sem hver kona getur nýtt sér og ábendingar um hvert sé hægt að leita eftir faglegri aðstoð.

Hugrún og Katrín, sem báðar eru sálfræðimenntaðar munu halda fræðslukvöld um fæðingarþunglyndi þann 7. júni næstkomandi í fyrirlestarsal Heilbrigðisstofnunnar Suðurlands.

„Við vorum búnar að vera með þessa hugmynd í maganum í sitt hvoru horninu í svolítinn tíma áður en leiðir okkar lágu saman,“ segir Hugrún. „Það var svo fyrir ári sem við hittumst og ákváðum að fara að vinna að því að stofna félagið,“ segir Katrín.

Þær segja að félaginu sé ætlað veita fræðslu og vinna að forvörnum. „Við hugsum þetta þannig að við erum að hjálpa konum sem upplifa fæðingarþunglyndi að hjálpa sér sjálfar. Í bæklingnum er að finna upplýsingar um hvert konur geta leitað eftir aðstoð og einnig að þær viti af félaginu,“ segir Katrín.

Takmörkuð þjónusta
Hugrún og Katrín segja að helsta ástæðan fyrir því að þær ákváðu að stofna félagið var að þjónusta við konur með fæðingarþunglyndi sé mjög takmörkuð á svæðinu.

„Það er frábært fólk sem vinnur á HSU og sinnir þessum hópi kvenna eins vel og þær geta. Það hefur m.a. verið í boði að fá auka skoðanir og samtöl við geðhjúkrunarfræðing og ljósmæður sem dugar mörgum en aðrir þurfa að leita til Reykjavíkur,“ segir Katrín.

„Það er samt ákveðin vitundarvakning í þessum mál okki núna og hópurinn stækkar þar af leiðandi. Við sáum því kjörið tækifæri til að nýta reynslu okkar og þekkingu og úr varð verkefnið okkar, Samvera“ segir Hugrún. Þó vanti meira fjármagn í málefnið svo hægt sé að auka forvarnir og láta konur vita hvar aðstoðina er að finna.

Þörf á vitundarvakningu
Talið er að 13-15% kvenna þjáist af fæðingarþunglyndi en margar þeirra finna fyrir skömm af þeim sökum. Þess vegna vilja Hugrún og Katrín opna umræðuna. „Flestir sem eru á barneignaraldri þekkja einhvern sem hefur upplifað fæðingarþunglyndi því þetta er svo algengt. Það getur verið erfitt fyrir konur að leita sér hjálpar því vandamálið er falið og er enn svo mikið tabú. Það má ekki ræða það vegna þess að því fylgir svo mikil skömm. En fæðingarþunglyndi á ekki að vera tabú. Þess vegna er svo mikil þörf á vitundarvakningu svo konur geti talað um þetta hver við aðra og leitað sér hjálpar og látið sér líða betur,“ segir Katrín.

Þessa dagana vinna þær stöllur að því að fjármagna verkefnið til að geta komið því að koppinn. Þær vilja koma kærum þökkum til þeirra sem hafa veitt þeim styrki og gert þeim kleift að halda fræðslufyrirlestrana en í þeim hópi eru nokkur kvenfélög á Suðurlandi.

Samvera á Facebook