Eyvindur stofnar unglingadeild

Björgunarfélagið Eyvindur á Flúðum hefur stofnað unglingadeild sem ber nafnið Vindur.

Þetta er gert í kjölfar þess að Björgunarsveitin Sigurgeir í Skeiða- og Gnúpverjahreppi ákvað að segja upp samstarfi félaganna um rekstur unglingadeildarinnar Skúla.

„Félagsmenn unglingadeildarinnar eru krakkar úr Flúðaskóla,“ segir Halldóra Hjörleifsdóttir, umsjónarmaður unglingadeildarinnar. Unglingar úr Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Hrunamannahreppi sækja Flúðaskóla og allir fimmtán félagar unglingadeildarinnar Skúla gengu í Vind við stofnun hans. Segir Halldóra að á velheppnuðum kynningarfundi hafi síðan tólf aðilar skráð sig til viðbótar í Vind.

„Við fundum að krakkar í framhaldsskólum vildu meira og fjölbreyttara starf með björgunarsveitinni og því ákváðum við líka að stofna nýliðahóp í vor,“ segir Halldóra.

Í nýliðahópnum eru unglingar á aldrinum 16 til 18 ára og var hann stofnaður til að taka við þeim sem komu upp úr unglingadeildinni en vildu undirbúa sig undir frekara starf í björgunarsveit en hópurinn er líka opinn þeim unglingum sem hafa áhuga á að kynnast starfinu frá grunni.

Nú eru tíu unglingar í nýliðahópnum og segir Halldóra að björgunarfélagið hafi hug á að koma á samstarfi við björgunarsveitir í nágrenninu um starf nýliða.

Fyrri greinArnarstaða Rektor besti hundur sýningarinnar
Næsta greinBorgaraleg ferming á Selfossi