Eystri-Rangá komin yfir þúsund laxa

Við Eystri-Rangá. Ljósmynd/Pétur

Nú hafa veiðst 1.111 laxar í Eystri-Rangá, sem bætti við sig 611 löxum á síðustu sjö dögum. Tölur sem þessar hafa aldrei sést í ánni í fyrstu vikunni í júlí.

Ytri-Rangá er skammt undan en veiðin á einni viku var 439 laxar og samtals hafa veiðst 916 laxar.

Þetta er gríðarleg aukning miðað við sumarið í fyrra, en á sama tíma árið 2015 var 91 lax kominn á land í Eystri-Rangá og 209 í Ytri-Rangá. Heildarveiðin í Eystri-Rangá var 2.749 laxar í fyrra og náði áin þúsund laxa markinu í fyrstu vikunni í ágúst.