Eystri-Rangá komin í 2. sætið

Í vikunni voru 877 laxar komnir á land í Eystri-Rangá og er hún komin upp í 2. sætið yfir aflahæstu laxveiðiár landsins.

Veiðin er þó langt undir því sem hún var í fyrra en á sama tíma árið 2013 voru 1.170 laxar komnir á land í Eystri-Rangá.

Aflamunurinn er ennþá meiri í Ytri-Rangá en þar hafa aðeins komið 534 laxar á land miðað við 1.317 á sama tíma í fyrra.

Veiðin í Stóru-Laxá er betri í ár en í fyrrasumar. Nú eru komnir 110 laxar á land í ánni en á sama tíma í fyrra voru þeir 105. Sömu sögu má segja í Affalli í Landeyjum þar sem veiddum löxum hefur fjölgað mikið á milli ára. Nú eru komnir 90 laxar á land þar en voru 43 á sama tíma í fyrra.

Ölfusá er komin í 59 laxa sem er mun minni veiði en í fyrra, en áin hefur verið lituð undanfarna daga og lítið veiðst.

Fyrri greinLýst eftir Guido Varas
Næsta greinStyrmir Dan bætti Íslandsmetið