Eykt bauð lægst í brúarsmíði

Eykt ehf í Reykjavík bauð lægst í smíði nýrrar brúar yfir Múlakvísl og 2,2 km vegarkafla sem tengir hana við Hringveginn.

Sex tilboð bárust í verkefnið og hljóðaði tilboð Eyktar upp á rúmar 470 milljónir króna. Áætlaður verktakakostnaður Vegagerðarinnar var 501 milljón króna þannig að tilboð Eyktar er 94% af kostnaðaráætlun.

Næstlægsta boð átti Urð og grjót ehf í Reykjavík, rúmar 482,4 milljónir króna. Fjögur boð voru yfir kostnaðaráætlun; 505,7 milljónir króna frá Jáverk á Selfossi, 518,8 milljónir króna frá Ístaki, 633 milljónir króna frá ÍAV og hæsta boðið átti Ingileifur Jónsson ehf, 684,4 milljónir króna.

Nýja brúin verður eftirspennt bitabrú í sex höfum, 162 m löng og 10 m að breidd. Verkið felur einnig í sér gerð varnargarðs, keilur við brú og landmótun.

Verkinu skal að fullu lokið fyrir 1. september 2014.

Fyrri greinMenningarveislan hefst um helgina
Næsta greinBreikkun Hellisheiðar boðin út