Eyjasundsbikarinn afhentur í fyrsta skipti

Sigrún með Eyjasundsbikarinn ásamt Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra. Ljósmynd/Aðsend

Eyjasundsbikarinn var afhentur í vikunni í fyrsta skipti en bikarinn fá þeir sem synt hafa Eyjasundið, sem er milli Vestmannaeyja og Landeyjasands.

Alls hafa fimm einstaklingar synt Eyjasundið en 60 ár eru síðan Eyjólfur Jónsson synti það fyrstur manna árið 1959. Fyrr á þessu ári synti Sigrún Þuríður Geirsdóttir, sem er frænka Eyjólfs, fyrst kvenna Eyjasundið. Í kjölfar þess og í tilefni af 100 ár kaupstaðarafmæli Vestmannaeyjabæjar á þessu ári ákvað bæjarráð Vestmannaeyja að láta útbúa sérstakan Eyjasundsbikar þar sem fram koma nöfn þeirra sem þreytt hafa umrætt sund. Auk þess var útbúinn upplýsingaskjöldur um Eyjasundið sem verður settur upp í íþróttahúsi Vestmannaeyja.

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja afhenti Sigrúnu Þuríði Eyjasundsbikarinn við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu í Vestmannaeyjum síðastliðinn sunnudag. Auk Sigrúnar var Kristinn Magnússon, sem var sá þriðji til að synda Eyjasundið, viðstaddur og tóku þau við viðurkenningum frá Vestmannaeyjabæ.

Sundmennirnir fimm sem synt hafa Eyjasundið eru:
1. Eyjólfur Jónsson 13.07.1959
2. Axel Kvaran 21.07.1961
3. Kristinn Magnússon 30.08.2003
4. Jón Kristinn Þórsson 04.08.2016
5. Sigrún Þuríður Geirsdóttir 23.07.2019
Fyrri greinJólastund Karlakórs Selfoss framundan
Næsta greinBæjarstjórinn heimsótti tíuþúsundasta Árborgarann