Eyjafjallajökull hefur kólnað

„Já, hann hefur aðeins kólnað og við verðum að vera aðeins vakandi við að halda honum heitum,“ segir Arndís Soffía Sigurðardóttir aðspurð um hvort Eyjafjallajökull hafi kólnað sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn á Suðurlandi.

Arndís á og rekur Hótel Fljótshlíð ásamt manni sínum Ívari Þormarssyni.

Hún vill meina að möguleikarnir séu enn til staðar fyrir aðila í ferðþjónustu til að nýta sér jökulinn sem aðdráttarafl.

„Það er ennþá til mikils að vinna. Fólki finnst mjög merkilegt að vera á þessum stað og vera nálægt jöklinum fræga þar sem gosið var,“ segir Arndís.

Hún segir að gæta þurfi vel að því að fólk viti hvað er í boði á svæðinu. „Við verðum að passa að fólk átti sig á því hvar það er og að hér sé hægt að gera fullt af skemmtilegum hlutum í tengslum við eldgosið. Hér eru mörg afþreyingarfyrirtæki sem bjóða uppá alls konar ferðir þarna upp eftir,“ segir Arndís.

Hún segir að það þurfi að hafa meira fyrir því að fá fólk á staðinn. „Auðvitað er hann ekki í deiglunni eins og hann var. Við þurftum ekkert að hafa fyrir þessu þegar lætin voru sem mest, en núna þurfum við svolítið að minna á þetta,“ segir Arndís.

„Ég myndi segja að við getum gert betur að halda honum á lofti. Bæði hérna á svæðinu og líka ferðaskrifstofur sem eru að selja Ísland.“

Annars lítur sumarið vel út í Fljótshlíðinni og Arndís segir fólk vera bjartsýnt. „Við erum alla vega brött hérna. Sumarið lítur vel út og þetta er bara besta mál,“ segir hótelstjórinn jákvæður. „Ég er sátt við bókanir. Þetta er allt að fyllast.“

Fyrri greinNáttúrugjald innheimt við Kerið
Næsta greinMargar tilkynningar um utanvegaakstur