Eygló ráðin í Skaftárhreppi

Eygló Kristjánsdóttir hefur verið ráðin sveitarstjóri í Skaftárhreppi. Hún tekur við starfinu af Bjarna Daníelssyni.

„Ég er mjög spennt fyrir þessu starfi og hlakka til að hefja störf,“ segir Eygló sem flytur sig þvert yfir landið, rúma 500 kílómetra frá Reykhólum á Klaustur. „Ég geri mér grein fyrir því að mín fjölskyldustaða hefur spilað þarna inní. Íbúum hefur farið fækkandi á svæðinu og það munar örugglega um að fá fimm manna fjölskyldu á svæðið,“ segir Eygló létt í bragði en eitt af verkefnum sveitarstjórnar er að reyna að snúa þróun íbúafjölda við.

Eygló er menntaður viðskiptafræðingur og hefur undanfarin ár starfað sem skrifstofustjóri Reykhólahrepps. Hún hefur þó sterkar rætur sunnanlands, bjó lengi í Hveragerði, dóttir Kristjáns Ólafssonar á Suður-Hvoli í Mýrdal og Þórunnar Friðriksdóttur.

Sambýlismaður Eyglóar er Bjarki Þór Magnússon, smiður, og eiga þau þrjú börn, Dagnýju (f. 1996), Þórdísi (f.2005) og Emil (f.2006). Eygló tekur til starfa um miðjan ágúst en fjölskyldan mun flytja á Kirkjubæjarklaustur í ágúst.

Fyrri greinDæmd fyrir að slá lögreglukonu
Næsta greinSjö marka leikur í Hveragerði