Eydís áfram sveitarstjóri í Flóahreppi

Eydís Þ. Indriðadóttir hefur verið ráðin sveitarstjóri Flóahrepps til næstu fjögurra ára. Ráðningarsamningur hennar var samþykktur á fyrsta fundi nýrrar sveitarstjórnar í gær.

Bæði fulltrúar T-listans og L-listans höfðu lýst því yfir að starf sveitarstjóra yrði auglýst eftir kosningarnar.

Í bókun L-listans, sem skipar meirihluta sveitarstjórnar, segri að í aðdraganda kosninganna hafi verið óvissa um hvort Eydís hefði hug á að framlengja starf sitt.

„Nú liggur hins vegar fyrir vilji Eydísar til að sinna starfinu áfram næsta kjörtímabil,“ segir í bókun L-listans og í því ljósi lagði meirihlutinn til að Eydís yrði ráðin til næstu fjögurra ára og fallið verði frá áformum um að auglýsa stöðu sveitarstjóra.

Samningur Eydísar er óbreyttur að undanskildum föstum akstursgreiðslum sem falla niður, að ósk Eydísar. Henni verður hér eftir greitt samkvæmt akstursdagbók.

Fulltrúar T-listans greiddu atkvæði gegn ráðningunni og sögðu að kúvending L-listans varðandi það að auglýsa starfið sætti mikilli furðu. „Það er skýlaus krafa T-listans að staða sveitarstjóra sé auglýst og staðið sé við gefin loforð,“ segir í bókun T-listans

L-listinn svaraði með bókun þar sem segir að það væru fráleit vinnubrögð að horfa framhjá starfandi sveitarstjóra, hæfum starfsmanni með reynslu, þekkingu og öllum málum kunnug eftir fjögurra ára starf hjá hreppnum.

Fyrri greinHænsnaeigandi sviptur 20 hænum
Næsta greinSunnlendingar stefna á Perlubikarinn