Eyðibýli á Suðurlandi rannsökuð

Í sveitum landsins er fjöldinn allur af eyðibýlum og öðrum yfirgefnum íbúðarhúsum sem mörg hver eru vel byggð og geyma merka sögu.

Ástand þeirra er mjög misjafnt en mörg þeirra er þó enn hægt að gera upp og nýta. Sett hefur verið af stað verkefni sem felur í sér rannsókn á menningarlegu vægi þessara húsa, björgun þeirra, endurgerð og nýtingu. Fyrstu skref verkefnisins verða tekin í sumar. Þau fela í sér að hefja rannsókn á fjölda, ástandi og eignarhaldi þessara gömlu húsa á Suður- og Suðausturlandi. Aðstandendur verkefnisins eru Gláma– Kím arkitektastofa, R3- Ráðgjöf og Ómar Bjarki Smárason jarðfræðingur. Verkefnisstjórar eru Gísli Sverrir Árnason og Sigbjörn Kjartansson.

Hugtakið eyðibýli er hér notað í nokkuð víðum skilningi. Það er látið ná yfir yfirgefin hús í sveitum og smærri þéttbýlisstöðum, jafnvel þótt þau standi þar sem enn er önnur byggð til staðar, þ.e. ekki eingöngu á eyðijörðum.

Eyðibýli geta haft mikla þýðingu af ýmsum ástæðum. Þau geta verið merkrar menningarminjar, og mikilvægrar heimildir um byggðasögu. Aldur húsanna, húsagerð eða byggingarlag þeirra getur verið sérstakt en einnig er sérstaða húsanna í búsetulandslagi sveitanna oft mikil.

Markmið verkefnisins er að meta menningarlegt vægi einstakra húsa og varðveita þannig valin eyðibýli (hús) á Íslandi. Í framhaldinu að kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að eyðibýli og yfirgefin hús í sveitum landsins verði gerð upp af eigendum þeirra eða stofnað félag um rekstur og útleigu þeirra í ferðaþjónustu.

Í sumar sjá fimm háskólanemar um rannsóknir á eyðibýlum sem lýkur svo með kynningu á verkefninu í haust. Þau hefja rannsókn sína á Hornafirði 6. júní og halda síðan vestur eftir Suðurlandi. Verkefnið er stutt í ár meðal annars af Nýsköpunarsjóði námsmanna, Húsafriðunarsjóði, Kvískerjasjóði og sveitarfélögum á Suðurlandi.

Frá þessu var greint á heimasíðu Mýrdalshrepps.

Fyrri greinSkiltum, hliði og merkingum stolið
Næsta grein40 milljónir til að styrkja gróður