Evíta gjafavörur opnar á Selfossi

Á morgun, laugardag, verður verslunin Evíta gjafavörur opnuð á Eyravegi 38 á Selfossi, við hlið Flugger lita.

Evíta er einkafyrirtæki stofnað af Láru Davíðsdóttur árið 1980, upphaflega sem hárgreiðslustofa í Reykjavík. Árið 2003 bættist síðan við innflutningur og sala gjafavöru sem skapaði Evíta sérstöðu sem hárgreiðslustofa og gjafavöruverslun í einu og sama fyrirtækinu, í Starmýri 2 í Reykjavík.

Lára hefur nú ákveðið að söðla um, hætta í hárgreiðslunni eftir meira en 40 ár í faginu, freista þess að selja eða leigja hárgreiðslustofuna og flytja gjafavöruverslunina á Selfoss. Eigandinn, Lára Davíðsdóttir hárgreiðslumeistari, er Reykjavíkurmær og maður hennar Arinbjörn Sigurgeirsson rekstrarfræðingur, er bóndasonur frá Bjargi, slóðum Grettissögu.

“Fyrri staðsetning var ekki hentug fyrir búðina eina án hárgreiðslustofunnar, auk þess sem húsnæðið þar var í raun orðið of lítið. Við eigum gott sumarhús í Grímsnesinu, stutt frá Selfossi, þar sem við höfum verið mikið í lausum tíma jafnt sumar sem vetur,” segir Arinbjörn þegar hann er spurður að því hvers vegna þau séu að flytja verslunina á Selfoss.

“Við hjónin höfum oft talað um að þessi búð gæti átt góðan rekstrargrundvöll á Selfossi, þar sem vörurnar henta vel fyrir heimili og sumarbústaði. Í raun höfum við orðið vör við að margir viðskiptavinir okkar eru búsettir á Selfossi, með tengsl þar, eða eigendur sumarhúsa á Suðurlandi og víðar. Seinni hluta vetrar fengum við ábendingu um að húsnæðið á Eyravegi 38 væri laust. Við stukkum á það og höfum síðan verið að koma okkur fyrir þar,” segir Arinbjörn.

Lára og Arinbjörn flytja allar vörurnar inn sjálf og koma þær víða að, mest frá Danmörku og Svíþjóð. “Við erum með úrval, til dæmis af lömpum, lugtum og svo ótal mörgu öðru, við erum með að minnsta kosti eittþúsund mismunandi vörur,” segir Arinbjörn. “Það hefur verið mikil vinna að flytja allt úr okkar litlu verslun sem var býsna þjappað í og að koma fyrir í þessu stærra og glæsilega húsnæði á Eyraveginum.”

Þau hjónin eru bjartsýn á reksturinn á Selfossi en þau reyna að stilla álagningu og verði í hóf. “Við erum bjartsýn á að í þessu vaxandi sveitarfélagi og umhverfi þess sé rekstrargrundvöllur fyrir Evítu, með þær fjölbreyttu vörur sem í boði eru. Ætlunin er síðan að opna sem fyrst vefverslun og selja mögulega líka í heildsölu, eftir því sem tími og tækifæri verða til,” segir Arinbjörn.

“Við höfum eingöngu fundið fyrir jákvæðni og góðum anda í okkar garð, hjá þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem við höfum haft samskipti og viðskipti við í þessari undirbúningsvinnu og erum spennt að starfa í þessu góða umhverfi.”

Fyrri greinBirta er hönnuður framtíðarinnar
Næsta greinHáskólalestin á Klaustri um helgina