Evíta er þekkt merki út um allt land

„Það er svo margt til hérna!“ er það fyrsta sem blaðakona heyrir þegar hún gengur inn í gjafavöruverslunina Evítu á Selfossi en nýir eigendur tóku við rekstri verslunarinnar nýverið.

Hjónin Ágústa Pálsdóttir og Haukur Hafsteinsson fengu veður af því að verslunin væri til sölu og ákváðu að slá til og skella sér út í verslunarrekstur á Selfossi, þó þau séu búsett í Mosfellsbænum. Ágústa, líkt og margir, keyrir því á milli Reykjavíkur og Selfoss daglega. „Það er fínt að keyra á milli núna en ég veit ekki hvernig það verður í vetur þegar það verður kominn snjór og frost,“ segir Ágústa.

En því ákváðu hjónin að fara út í það að reka gjafavöruverslun? „Ég hef mjög mikinn áhuga á gjafavöru bissnessinum og að vera í kringum fallega hluti. Svo er Evíta þekkt merki út um allt land og hingað hefur komið fólk úr Reykjavík og af Reykjanesinu til að kíkja í Evítu.“

Ágústa segir að hún ætli ekki að breyta vöruúrvalinu í versluninni mikið og halda áfram að taka inn vörur frá sömu birgjum og fyrri eigendur.

„Þetta eru vörur frá Danmörku, Svíþjóð og Frakklandi og víðar úr Evrópu en þetta eru mjög fallegar vörur,“ segir Ágústa. Konur eru helsti markhópur verslunarinnar en níutíu prósent viðskiptavina eru konur. „Það er bara ennþá þannig að konur sjá um að skreyta heimilið og sjá um að kaupa gjafir. Karlarnir sem koma eru mjög fáir og koma þeir oftast með konunum sínum. En þegar strákarnir koma sjálfir til að versla gjafir þá eru þeir að versla það sama og stelpurnar,“ segir Ágústa og brosir.

Að sögn Ágústu er ekki hægt að tala um að ein vara sé vinsælli en önnur í versluninni. „Þetta er bara allt vinsælt! Reyndar erum við með luktir sem hafa verið vinsælar sem brúðargjafir og einnig bollastell frá dönsku merki sem er líka vinsælt í slíkar gjafir. Annars er þetta bara allt vinsælt. Fólk fær bara valkvíða af því að það er svo mikið til hérna,“ segir Ágústa og hlær.

Fyrri greinLið HSK bikarmeistari eftir spennandi keppni
Næsta greinVantar lítið uppá – úrslitaleikur á laugardag