Eva Björk biðst lausnar

Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps, baðst lausnar frá setu í sveitarstjórn, nefndum og stjórnum Skaftárhrepps á síðasta fundi sveitarstjórnar, þar sem hún er að flytja úr sveitarfélaginu.

„Ég hverf nú frá störfum oddvita fyrir Skaftárhrepp með þakklæti í hjarta fyrir þau tæpu átta ár sem ég hef notið þeirra forréttinda að fá að vinna fyrir sveitunga mína og Skaftárhrepp. Þessi ár hafa verið lærdómsrík fyrir mig og mun ég búa að þeirri reynslu til framtíðar. Ýmislegt hefur áunnist en margt er enn óunnið og um leið og ég þakka sveitarstjórn fyrir samvinnuna, óska ég henni og sveitungum mínúm alls hins besta í framtíðinni og þakka fyrir mig,“ sagði Eva Björk í bókun á fundinum.

Kosið verður um nýjan oddvita á næsta fundi sveitarstjórnar sem er áætlaður fimmtudaginn 11. nóvember næstkomandi. Jón Hrafn Karls­son á Syðri-Steinsmýri mun taka sæti í sveit­ar­stjórn í stað Evu.

Fyrri greinÚtisigrar hjá Hamri og Selfossi
Næsta greinEvrópuleikur Selfyssinga í beinni útsendingu