Espiflöt fékk landbúnaðarverðlaunin 2020

Eigendur Espiflatar voru einnig heiðraðir í vor en þá hlaut garðyrkjustöðin landbúnaðarverðlaunin 2020 á Búnaðarþingi. Ljósmynd/Aðsend

Garðyrkjustöðin Espiflöt í Biskupstungum og kúabúið Garður í Eyjafirði fengu landbúnaðarverðlaunin 2020 á nýafstöðnu Búnaðarþingi.

Hugmyndin að baki verðlaununum er að veita bændum og býlum sem á einn eða annan máta vekja athygli og eru til fyrirmyndar í íslenskum landbúnaði, viðurkenningar og hvatningarverðlaun. Ráðherra landbúnaðarmála hefur veitt verðlaunin frá árinu 1997 og sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við þetta tilefni að honum væri mikill heiður að veita verðlaunin á Búnaðarþingi

„Í báðum tilfellum er um að ræða metnaðarfulla og nýjungagjarna bændur sem hafa byggt upp glæsileg starfsemi sem er til fyrirmynda í verðmætasköpun fyrir íslenskan landbúnað,“ sagði Kristján Þór.

Einn stærsti framleiðandi blóma á landinu
Sveinn Sæland, Áslaug Sveinbjarnardóttir, Heiða Pálrún Leifsdóttir og Axel Sæland tóku á móti verðlaununum Espiflatar. Á garðyrkjustöðinni var eingöngu ræktað grænmeti fram undir 1965 en á árunum 1965-1977 var þar blönduð ræktun blóma og grænmetis. Síðar tók stöðin að sérhæfa sig í ræktun afskorinna blóma og er í dag einn stærsti einstaki framleiðandi blóma hér á landi, með mikið úrval tegunda og litaafbrigða. Blóm eru ræktuð undir fullri vaxtarlýsingu þannig að framleiðslan er mjög jöfn yfir allt árið.

Á Espiflöt er áhersla lögð á vistvæna nálgun í öllum þáttum framleiðslunnar. Síðastliðin 17 ár hafa nær eingöngu verið notaðar lífrænar varnir til að halda niðri meindýrum og einnig hefur verið unnið að því markmiði að hreinsa og endurnýta allt vatn sem fer í gegnum stöðuna.

„Á Espiflöt hefur metnaður verið lagður í að framleiða blóm af bestu gæðum og í góðu úrvali. Litið er til framþróunar og að tileinka sér tæknilegar nýjungar sem miða að vinna að framangreindum markmiðum. Þar hefur verið byggð upp glæsileg starfsemi sem er til fyrirmyndar í íslenskum landbúnaði,segir í greinargerð með verðlaununum.

Fyrri greinKlippt af bíl á slitnum sumardekkjum
Næsta greinDagný skoraði sigurmark Íslands