„Erum komin inn að beini“

„Við stöndum nú hugsanlega frammi fyrir því að skera niður þjónustu. Fjárhagsstaðan er slæm og við erum komin inn að beini,“ segir Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps.

„Sveitarfélagið á engar stóreignir en við skoðum allt og metum hvort það er ávinningur af sölu annarra eigna. Við skoðum raunar allt sem okkur mögulega dettur í hug,“ segir Eygló ennfremur.

Sveitarstjórn Skaftárhrepps hefur samþykkt að selja vallarhúsið að Kleifum til Hótels Skaftafells fyrir 3,7 milljónir króna. „Fyrst og fremst vantar okkur tekjur,“ segir Eygló og bendir á í því sambandi að aukaframlag jöfnunarsjóðs hafi numið 5% af tekjum sveitarfélagsins í fyrra.

„Þetta eru engar stórfjárhæðir og í fyrra voru það 13,8 milljónir. Nú var aukaframlagið skorið niður um tvo þriðju hluta og það kemur mjög illa við okkur. Að þetta lítil fjárhæð skuli rugga bátnum hjá okkur segir allt um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Ef við heimfærum þetta hlutfall á Reykjavík þá væru þetta 3,1 milljarða tekjufall.“