„Erum gáttuð á viðtökunum“

Nýverið opnaði Ísbúðin Valdís á Hvolsvelli. Ísbúðin er staðsett að Austurvegi 4, í sama húsnæði og Krónan og bæjarskrifstofur Rangárþings eystra.

„Okkur Valdimar langaði að opna flotta ísbúð á Hvolsvelli. Þegar við bjuggum í Reykjavík vorum við tíðir gestir í uppáhalds ísbúðinni okkar sem var Valdís á Granda, þannig að við ákváðum að hafa samband við Gylfa Þór Valdimarsson, sem að er annar eigandi Valdísar og athuga möguleikann á því að fá að selja ísinn þeirra í ísbúðinni okkar,“ segir Þóra Kristín Þórðardóttir sem á og rekur ísbúðina Valdísi á Hvolsvelli ásamt unnusta sínum, Valdimar Gunnari Baldurssyni.

„Úr þessu símtali varð tilboð frá Gylfa um að við myndum opna Valdísi á Hvolsvelli. Við vorum auðvitað í sjokki yfir þessu frábæra tilboði og tókum því strax. Við þetta breyttust allar áherslur þar sem að við framleiðum allan ísinn sjálf í Valdísi á Hvolsvelli. Það er auðvitað aðeins stærra umfangs en við gerðum ráð fyrir í upphafi, þegar hugmyndin var einungis að opna litla ísbúð. En við erum svo ofboðslega ánægð og þakklát fyrir þetta frábæra samstarf og tækifæri,“ segir Þóra.

Sumir koma tvisvar á dag
Að sögn Þóru tók undirbúningurinn nokkra mánuði og gekk á ýmsu. „Þetta er búið að vera lærdómsríkt og skemmtilegt ferðalag en jafnframt mjög krefjandi og erfitt á köflum. Húsnæðið var fokhelt þegar að við byrjuðum og hefur Valdimar staðið að mestu í þessu sjálfur en með aðstoð frábærra aðila. Ég er ófrísk og á að eiga í október, svo að verkgeta mín er af skornum skammti. En við höfum hjálpast að með þetta allt saman á einn eða annan hátt,“ segir Þóra.

„Við erum gáttuð á viðtökunum og bjuggumst alls ekki við þessum fjölda sem hefur komið til okkar síðan við opnuðum. Það er gaman að sjá allt heimafólkið flykkjast að dag eftir dag og sumir koma meira að segja tvisvar á dag! Algjörlega frábært!“ segir Þóra.

Þóra segir að það sé blandaður hópur fólks sem verslar hjá þeim. „Ég verð þó að segja að heimamenn eru mjög tryggir viðskiptavinir og okkur finnst það frábært!

Framleiða allan ís sjálf
„Við framleiðum allan ís á staðnum, alveg frá grunni, beint fyrir framan augun á viðskiptavinunum. Við framleiðum ekta ítalskan ís úr íslensku hráefni, en við bjóðum upp á kúluís sem er ekta rjómaís og svo sorbet sem er mjólkurlaus og afskaplega frískandi. Við bjóðum uppá sextán mismunandi bragðtegundir daglega en við erum einnig með ís í vél, sem er rjómaís, bæði hvítur, súkkulaði og jarðarberja. Hægt er að fá sjeik og bragðaref úr hvaða ís sem er – bæði kúlum og vélarís – og fjölbreytt úrval af sælgæti,“ segir Þóra.

„Danskur lakkrís, Tyrkisk peber, salthnetu- og karamellu eru mjög vinsælar bragðtegundir hjá okkur, ásamt sítrónu sorbet. Annars verð ég að segja að allur ísinn er að fara nokkuð jafnt og höfum við varla undan að framleiða.“

„Við viljum þakka fyrir móttökurnar og vonumst til að fá sem flesta í ísbíltúr til okkar í Valdísi á Hvolsvelli,“ segir Þóra að lokum.

Fyrri greinStórt sumarhús ónýtt eftir eldsvoða
Næsta greinKynning á atvinnuflugmannsnámi á Selfossi