Eru að hefja verk í Úganda

Verkfræðistofa Suðurlands hefur gengið frá samn­ingi um verkefni Úganda í Afríku. Verkið kemur í framhaldi af verkefni sem stofan hefur verið með í Mósambík en því er að ljúka.

Að sögn Páls Bjarnasonar, fram­kvæmda­stjóra Verkfræði­stof­unn­ar, munu tveir til þrír menn verða að jafnaði við störf í Úganda og eru þeir að tygja sig af stað en gert er ráð fyrir að vinna við verkið hefjist nú í september og standi fram yfir áramót.

Verkefnið í Úganda er unnið í samstarfi við Verkfræðistofuna Eflu og norska stofu. Hér er um að ræða 220 km langa háspennulínu sem starfsmenn Eflu eru að hanna. Verkfræðistofa Suðurlands mun sjá um þær mælingar sem þarf. Eins og áður sagði hefur Verkfræðistofan verið með verk í Mozambique og hefur Rúnar Friðgeirsson, tækni­fræðingur, sinnt því.

,,Það verður að hafa allar klær úti til að afla verkefna til að geta haldið mannskapnum,“ sagði Páll í samtali við Sunnlenska en Verkfræðistofa Suðurlands hefur sérhæft sig í mælingum og eftirliti.