Erlendur ferðamaður handtekinn

Lögreglan á Suðurnesjum handtók í nótt erlendan ferðamann sem grunaður er um blygðunarsemisbrot í bíl við Engjaveg á Selfossi í gærdag.

Lögreglunni á Suðurlandi bárust í gær myndir og myndskeið af athæfi mannsins í bíl sínum og leiddu þær til handtöku hans þar sem hann var að búast til brottfarar af landinu.

Málið er nú til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi og er maðurinn vistaður í fangageymslum á Selfossi.

Telji einhver sig búa yfir upplýsingum sem gagnast gætu lögreglu við rannsóknina er sá hinn sami beðinn að hafa samband í tölvupósti á netfanginu sudurland@logreglan.is