Erlendir ferðamenn helmingur viðskiptavinanna

„Ferðamaðurinn kemur mjög mikið og verslar hjá okkur,“ segir Bylgja Þorvarðardóttir, verslunarstjóri í Sportbæ á Selfossi.

„Þetta er búið að vera mjög gott sumar og skýrist af auknum ferðamannafjölda á Suðurlandi milli ára. Ég mundi segja allavega 50% allra viðskiptavina okkar í sumar voru erlendir ferðamenn,“ segir Bylgja og bætir því við að ferðamennirnir hafi verið frá fjölmörgum löndum. Bylgja segir jafnframt að þó að það sé komið haust komi enn mikið af ferðamönnum í verslunina.

„Þeir kaupa oftast regnfatnað ásamt skóm og hlýjum fatnaði. Síðan kemur fyrir að töskur týnist og þá vantar þá margt annað með,“ segir Bylgja.

Bylgja segir að það sé mjög mismunandi hvaða merki ferðamaðurinn kaupi. „Sumir vilja bara íslenska hönnun á meðan aðrir spá eingöngu í hvað flíkin kostar. Við höfum líka selt vel af íslensku landsliðstreyjunni til ferðamanna vegna velgengi okkar á EM í sumar.“

Að sögn Bylgju á Sportbær á traustan og góðan kúnnahóp og koma sumir viðskiptavinir langa leið gagngert til að versla í verslunni. „Kúnnarnir okkar koma alla leið frá Klaustri og sveitunum í kringum okkur á Suðurlandi. Margir Reykvíkingar koma oft austur eingöngu til að versla. Þeim finnst mjög gott að koma í rólegheitin hérna á Selfossi.“

„Mikið af sumarbústaðarfólki eru okkar kúnnar líka og síðast en ekki síst versla allmargir Sunnlendingar hjá okkur. Við eigum marga góða, trausta kúnna og erum svo þakklát og ánægð hvað fólk kemur mikið og verslar hjá okkur hérna í Sportbæ. Við leggjum mikla áherslu á að veita góða þjónustu og leitumst alltaf við að finna það sem kúnninn biður um,“ segir Bylgja.

En hvaða flík skyldi vera ómissandi fyrir veturinn? „Hlý og góð úlpa þar sem við búum á Íslandi og góðir vetrarskór, vatnsheldir með góðum sóla. Eins er mikilvægt að eiga góða húfu og vettlinga þá erum við tilbúin í hvaða veður sem er,“ segir Bylgja að lokum.

Fyrri grein„Jafntefli hefði verið sanngjarnt“
Næsta greinDagbók lögreglu: Þrettán umferðaróhöpp en engin slys á fólki