Lögreglan á Suðurlandi hefur haft í nógu að snúast undanfarinn sólarhring en mikið er um að vera í umdæminu þessa helgina. Á meðal viðburða eru Laugavegshlaup, flughátíðin Allt sem flýgur á Hellu og fjölmenn Kótelettuhátíð á Selfossi.
Nokkur erill var á Selfossi í nótt en lögregla viðhafði mikið og öflugt eftirlit vegna tónlistarhátíðarinnar ásamt því að sinna öðrum verkefnum innan umdæmisins.
Nokkur fíikniefnamál komu á borð lögreglu og er eitt af þeim málum tengt sölu og dreifingu fíkniefna. Eitt kynferðisbrot er til rannsóknar ásamt einni líkamsárás. Nokkrir ökumenn hafa verið stöðvaðir, grunaðir um ölvun við akstur eða akstur undir áhrifum ávana- og/eða fíkniefna en taka má fram að lögregla hefur lagt mikla áherslu á eftirlit með ölvunarakstri það sem af er helgi og mun gera áfram. Að öðru leyti hafa hátíðahöldin gengið vel.
Blíðskaparveður er í umdæminu og er útlit fyrir enn meira fjölmenni á Selfossi í kvöld og nótt. Lögreglan mun áfram viðhafa öflugt eftirlit í umdæminu öllu.

