Erill hjá lögreglu

Talsverður erill var hjá lögreglumönnum á Selfossi um helgina. Mörg útköll voru vegna hávaða og drykkjuláta í húsum og á götum úti.

Tilkynnt var um tvær minni háttar líkamsárásir. Aðra í Hveragerði og hina á Selfossi.

Lögreglumenn sem kallaðir voru í fjölbýlishús á Selfossi fundu áberandi hasslykt berast frá einni íbúðinni. Þar fannst hass og var íbúi handtekinn. Hann viðurkenndi að vörsluna.

Þá voru fjórir ökumenn kærðir fyrir ölvunarakstur um helgina og 19 fyrir hraðakstur.