Erill hjá lögreglu vegna umferðaróhappa

Níu slys og umferðaróhöpp komu til kasta lögreglunnar á Selfossi um helgina. Um kvöldmatarleytið í gær valt jeppabifreið með hestakerru á Suðurlandsvegi í Hveradölum.

Þrennt var í bifreiðinni og var fólkið flutt með sjúkrabifreið á slysadeild. Fólkið reyndist óslasað en í áfalli. Í hestakerrunni voru tveir hestar sem sluppu við meiðsl.

Aðfaranótt sunnudags valt fólksbifreið á Suðurlandsvegi við Hveragerði. Tvennt var í bifreiðinni og annað þeirra flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi en meiðsli voru minni háttar.

Síðdegis á laugardag varð harður árekstur tveggja fólksbíla á Þingvallavegi skammt austan við þjónustumiðstöðina á Þingvöllum. Ekki var talið að fólk hafi slasast en bæði ökutækin voru óökufær eftir.

þá hlaut kona hálsáverka við það að jeppabifreið sem hún var farþegi í fór ofan í holu á jeppaslóð á Hellisheiði. Konan kastaðist með höfuðið upp í þak bifreiðarinnar við höggið. Hún var flutt á slysadeild en ekki talin hafa hlotið alvarlega áverka.

Fyrri greinFólk beðið um að hafa augun hjá sér
Næsta greinFjórir Rangæingar í U19