Erfitt að fullmanna í störf

Fyrirtæki á Suðurlandi eiga orðið í erfiðleikum með að finna starfsfólk í ákveðin störf. Svo virðist sem skólafólk nái ekki að anna þeirri eftirspurn eftir starfsfólki sem verður yfir sumartímann.

Alls eru 22 störf auglýst hjá Vinnumálastofnun á Suðurlandi frá tólf atvinnurekendum og hefur auglýstum störfum þar fjölgað að undanförnu. Þar eru nú 250 á atvinnuleysisskrá, og hefur sú tala ekki verið lægri frá hruni.

Svava Jónsdóttir ráðgjafi hjá VMST segir að framboðið af störfum hafi aukist jafnt og þétt. Bæði sé um að ræða tímabundin störf, einkanlega hjá ferðaþjónustuaðilum og garðyrkjubýlum, en einnig framtíðarstörf.

Guðmundur Gils Einarsson hjá Verslunarmannafélagi Suðurlands segist ekki hafa heyrt yfir því kvartað að fólk fengist ekki til starfa. „Við vitum hinsvegar af því að á ákveðnum stöðum er unnið á fáu fólki,“ segir hann. Vöntun sé gleðileg að vissu marki eftir þrengingar undanfarinna ára. „En það er ekki gott ef það verður of mikið álag á starfsfólki,“ segir Gils.

Af þeim 250 sem eru á skrá yfir atvinnulausa á Suðurlandi eru 37 í Vestmannaeyjum.

Fyrri greinÖrvar með tvö mörk í jafnteflisleik
Næsta greinGuðmundur með fyrirlestur um Lewis taflmennina