„Erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið“

„Það hefur verið ánægjulegt að vinna í sveitarstjórn Rangárþings ytra á þessu kjörtímabili en upp hafa komið vandamál í meirihluta Á-lista sem ekki reyndist hægt að leysa.“

Þetta segir Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir sem í gærkvöldi tilkynnti fulltrúum Á-listans í Rangárþingi ytra að hún hyggðist mynda nýjan meirihluta með D-listanum.

„Helstu ástæður erfiðleikana eru trúnaðarbrestur sem varð á milli mín og oddvita Á-listans fljótlega í samstarfinu og ekki náðist að vinna úr og lagfæra. Á-listinn ætlaði að vinna með fólkinu og allir áttu rétt á að hafa sínar skoðanir sama hverjar þær væru og fólk átti að geta verið ósammála.

Því miður gleymdust þessi mikilvægu atriði og reynt var að halda frá fólki sem var afgerandi í skoðunum sínum. Þegar ég kom úr fæðingarorlofi í sumar mætti ég spennt til að takast á við áframhaldandi verkefni. Ég ákvað að hafa hreinskilni að leiðarljósi, ég sagði meirihlutafélögum mínum frá óánægjuröddum með störf á okkar vegum og tjáði mig um að ég teldi farsælt fyrir samfélagið að við myndum skipta um oddvita þar sem tímabilið var hálfnað. Þetta fékk ekki hljómgrunn en í sömu viku var ég kölluð á fund oddvita og sagt að ég væri sú eina í meirihlutanum sem væri eitthvað óánægð og það væri alveg í lagi að einhver okkar færi að taka sér launalaust leyfi.

Eftir þetta hefur mér fundist erfitt að koma að málum sem mér eru hugleikin og það er erfitt að fá ekki tækifæri til að vinna að því brýnasta í samfélaginu okkar. Þetta er erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið en eftir það sem á undan er gengið hef ég tekið þessa ákvörðun samkvæmt minni bestu sannfæringu.

Í sveitarstjórnarmálum á fortíðin eða pólítík ekki að ráða för og það er trú mín að þeir sem muni mynda nýjan meirihluta muni starfa að málefnum af miklum heilindum og vonandi næst góð samvinna meðal allra í sveitarstjórn sem og íbúana og við nágrannasveitarfélög. Í þeirri reiði sem brotist hefur út meðal einhverra hafa verið sögð ljót og ósönn orð en ég trúi því að það sanna komi fram að lokum.

Ég mun vinna áfram af heilindum eins og ég lofaði kjósendum og það mun ég gera fyrir alla. Ég held að engin láti þvinga sig til afsagnar og mín trú er sú að allir hafi rétt á að starfa sem hafa verið kosnir til þess og ég tel mig eiga eftir að vinna að mörgum málum sem ég var kosin til að gera. Ég treysti góðu fólki á D-listanum til að vinna áfram vel að málum og í góðri sátt við íbúana,“ segir Margrét í fréttatilkynningu sinni.