„Er með ólæknandi dýrasýki“

Guðríður Eva ásamt hundunum sínum, Húna og Svölu. Ljósmynd/Carolin Giese

Dýralæknirinn á Flúðum er ný dýralækningarstofa í Hrunamannahreppi.

„Frá því að ég kom heim úr námi hef starfaði ég sem dýralæknir á Dýralæknamiðstöðinni á Hellu. Seinni hluta síðasta árs var okkur kynnt að eigendur þar vildu breyta rekstri sínum og stofunni var síðan lokað í lok árs 2019. Mig langaði þá bara til að nýta tækifærið og búa mér til mitt eigið, sjá um mig sjálf,“ segir Guðríður Eva Þórarinsdóttir, eigandi stofunnar.

„Þar sem það var enginn dýralæknir með starfsstöð hérna á svæðinu var þetta bara svolítið spennandi,“ segir Guðríður og bætir því við að meðfædd, ólæknandi dýrasýki hafi orðið til þess að hún varð dýralæknir. „Ég man eiginlega ekki eftir mér öðruvísi en með plön um að verða dýralæknir.“

Guðríður segir að viðtökurnar við stofunni hafi verið mjög góðar. „Mér finnst bara allir vera jákvæðir, það er ofsalega gaman að finna fyrir því.“

„Sem betur fer hugsa lang flestir vel um dýrin sín. Hvort sem það eru gæludýr eða búpeningur,“ segir Guðríður. Ljósmynd/Carolin Giese

Aukin almenn dýravelferð
Aðspurð hvort fólk sé duglegra að fara með dýrin sín til dýralæknis ef eitthvað amar að þeim segir Guðríður svo vera. „Ég held að gæludýrahald almennt sé alltaf að aukast og það samhliða aukinni áherslu á dýravelferð og vitneskju um dýrahald verði til þess að þörfin fyrir dýralæknaþjónustu hafi kannski aukist síðustu ár.“

„Sem betur fer hugsa lang flestir vel um dýrin sín. Hvort sem það eru gæludýr eða búpeningur. Ég hef kannski ekki samanburðinn svo langt aftur. En við erum alltaf að læra og bæta okkur og þar er skepnu- eða dýrahald engin undantekning. Almenn dýravelferð og þekking um þarfir dýranna sem við höldum er alltaf að aukast,“ segir Guðríður.

Guðríður er ekki aðeins að þjónusta Flúðir og nágrenni. „Ég fer eitthvað um nánast allt Suðurland en er þó er mest hérna í uppsveitum Árnessýslu og svo þjónusta ég enn fólk í Rangárvallasýslu. Fyrir það er ég mjög þakklát því það skemmtilegasta við þetta starf er einmitt fólkið sem maður kynnist. Ég starfaði fyrir austan í yfir sex ár og sem betur fer var samstarf mitt við viðskiptavinina það gott að ég hvorki tími að sleppa af þeim takinu eða þeir mér,“ segir Guðríður að lokum.

dyralaeknirinn.com

Fyrri greinFramrás bauð lægst í aðkomuveg á Klaustri
Næsta greinSigursveinn ráðinn aðstoðarskólameistari