,,Er að sópa aðeins hjá okkur“

Síðustu daga hefur dýpkunarskipið Perlan verið í Þorlákshöfn eftir að hafa verið í langri og strangri dælingu í Landeyjahöfn.

„Það er ládautt fyrir austan og við höfum ekki séð Herjólf í á aðra viku,“ sagði Indriði Kristinnsson hafnarstjóri í Þorlákshöfn í samtali við Sunn­lenska.

Perlan er í viðhalds­verkefni í Þorlákshöfn og að sögn Indriða er gert ráð fyrir að skipið dæli í burtu um 20.000 rúmmetrum af sandi. Til samanburðar má nefna að Perlan hefur tekið um 400.000 rúmmetra úr Landeyjahöfn.

,,Perlan er að sópa aðeins hjá okkur,“ sagði Indriði en dýpkunin er hluti af hefðbundnu viðhaldi við höfnina enda berst talsverður sandur inn í Þorlákshöfn eins og annars staðar við suðurströndina. Að sögn Indriða kemur Perlan á tveggja til þriggja ára fresti og mun hún dýpka á tveimur til þremur stöðum í höfninni.