Ennþá erill hjá björgunarsveitum – 52 m/sek hviða undir Ingólfsfjalli

Aðgerðastjórn í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Björgunarsveitir í Árnessýslu eru enn á ferðinni og ennþá eru mörg útköll að berast, helst á Selfossi.

Einnig hefur verið erill í sjúkraflutningum og hafa björgunarsveitarbílar verið notaðir sem sjúkrabílar.

Á bökkum Ölfusár er veðurhæðin ekkert að minnka, þó að úrkoman sé minni. Veðrið var verst á milli kl. 19 og 22 en nú virðist aðeins vera að bæta í vind aftur og sterkasta hviðan sem mælst hefur á Selfossi var 36 m/sek á miðnætti.

Vindhraði undir Ingólfsfjalli varð mestur á milli kl. 19 og 20 og sterkasta hviðan var 52,3 m/sek kl 19:20.

Björgunarsveitarmenn hafa ferjað hjúkrunarfólk á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og dvalarheimilinu Ási til og frá vinnu og þá var fangavörðum ekið frá Selfossi að Litla-Hrauni við vaktaskipti í kvöld og dagvaktin fékk far til baka. Sömu sögu var að segja í fangelsinu á Sogni í Ölfusi.

Rafmagn komið á nokkra bæi
Í Sandvíkurhreppi er komið rafmagn að Votmúla en ennþá er rafmagnslaust í Tjarnarbyggð, Sandvík, Kaldaðarnesi, Selfossflugvelli og Björk. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is er búið að finna slit á línu í hreppnum en aðstæður eru mjög erfiðar og óvíst hvernig viðgerð mun ganga.

Skóli fellur niður í Bláskógabyggð
Ljóst er að skólahald mun raskast víða í fyrramálið. Þannig hefur meðal annars verið ákveðið að fella niður allt skólahald í leik-og grunnskóladeildum Bláskógaskóla á Laugarvatni, Álfaborg og í Bláskógaskóla Reykholti. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að snjóruðningstæki geti farið af stað fyrr en eftir hádegi, gangi spár eftir.

Í Hvolsskóla á Hvolsvelli verða börn undir Eyjafjöllum ekki sótt með skólabíl í fyrramálið þar sem lokun verður við Markarfljót að öllu óbreyttu. Hvað annan akstur varðar verður staðan tekin snemma í fyrramálið.

Fyrri greinMikið tjón í garðyrkjuskólanum – Hjálparsveitin þurfti að snúa frá
Næsta greinSkólahald fellur víða niður