Enn of grunnt í Landeyjahöfn

Dýpi við hafnarmynni Landeyjahafnar er hvergi nægjanlegt svo öruggt þyki að sigla inn í höfnina. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Eimskip.

Sem dæmi þá er minnsta dýpið í hafnarmynninu 4,5 metrar þar sem dýpið á að vera minnst 6 metrar. Eins er dýpi innan hafnar minnst 3,4 m þar sem dýpið ætti að vera 5,5 m. Til skýringar ristir Herjólfur 4,20 m þegar skipið er í kyrrstöðu.

Eimskip sendi frá sér yfirlýsingu vegna viðtals við Sigurð Áss Grétarsson forstöðumanns hafnarsviðs Siglingastofnunar í Eyjafréttum í gær, en þar er haft eftir honum að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að Herjólfur sigli í Landeyjahöfn. „Það er hins vegar skipstjóranna að ákveða það,“ segir Sigurður.

„Staðreyndir málsins eru þær að nýjasta dýptarkort gefið út af Siglingamálastofnun sýnir að dýpi í hafnarmynni Landeyjarhafnar er hvergi nægjanlegt svo öruggt þyki að sigla inn í höfnina,“ segir í yfirlýsingu Eimskips, sem gerir Herjólf út.