Enn er óveður víða

Enn er stormur eða rok, 20-28 m/s, víða á Suðurlandi. Horfur eru á að ekki fari að lægja fyrr en á morgun. Mikið tjón hefur orðið á Suðurlandi og var ástandið einna verst undir Eyjafjöllunum og í Mýrdalnum.

Nú undir kvöld hefur verkefnum björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila fækkað nokkuð og hópum sem eru að störfum á vegum björgunarsveitanna hefur fækkað.

Vakt verður í Samhæfingarstöð almannavarna framundir miðnætti en þó henni ljúki verður samt fylgst áfram með ástandi mála. Ef fólk þarfnast aðstoðar er áfram hægt að hringja í 112 til að óska eftir aðstoð.

Liðsauki fór frá björgunarsveitum í Árnessýslu á höfuðborgarsvæðið í dag þar sem á annað hundrað aðstoðarbeiðnir bárust.

Á Hvolsvelli, í Þingvallasveit og Mýrdal tryggðu sveitir þök af íbúðarhúsum og hlöðum og á Kirkjubæjarklaustri þurfti meðal annars að bregðast við þegar girðingin við gerfigrasvöllinn fór af stað.

Rafmagnstruflanir voru víða á Suðurlandi. Víkurlína undir Eyjafjöllum og í Mýrdal bilaði.

Drasl og járnplötur fuku á línuna á milli Hvamms og Hrútafells og rafmagnsstaurar brotnuðu við Pétursey í Mýrdal og við Hunkubakka í Skaftárhreppi. Hálfur hektari lands brann þar þegar neistaflug frá línunum kveikti eld í sinu. Þá hafa viðgerðarmenn átt erfitt með að athafna sig vegna veðurhæðar.

Einnig var straumlaust í Selvogi í dag.

Mikið tjón varð í Vík í Mýrdal á bílum og fasteignum og sömu sögu er að segja undir Eyjafjöllunum þar sem heimamenn sögðust ekki hafa séð annað eins veður í áraraðir. Veðurofsinn var slíkur undir Fjöllunum að ekki var hægt að fara á milli bæja.