Enn ekki útséð um tjón

Sveitarstjórn Rangárþings eystra stóð fyrir fjölmennum íbúafundi á Heimalandi á miðvikudagskvöld vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Fulltrúar ýmissa stofnana sem tengjast eldgosinu fluttu stutt erindi og sátu fyrir svörum. Fundurinn var afar upplýsandi og fengu íbúar svör við ýmsu sem brann á fólki.

Þrjár ályktanir voru samþykktar á fundinum.

Fundurinn sendi ályktun til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, þar sem því er mótmælt að ekki sé komið til móts við þá íbúa sem orðið hafa fyrir tjóni á vélum og tækjum sem skemmst hafa af völdum ösku og öskufoks.

Þá sendi fundurinn ályktun til Bjargráðasjóðs þar sem hvatt er til þess að fyllsta jafnræðis verði gætt milli bænda á gossvæðinu, hvort heldur þeirra sem sjálfir hafa heyjað fjarri heimilum sínum eða þeirra sem hafa fengið aðkeypt hey í gegnum Bjargráðasjóð.

Að lokum var forsætisráðuneytið hvatt til þess að sjá til þess að tilkynningarfrestur vega tjóna af völdum eldgossins verði framlengdur um a.m.k. eitt ár þar sem enn er ekki útséð um allt það tjón sem eldgosið hefur valdið í sveitarfélaginu.

Tillögurnar voru allar samþykktar samhljóða.

Fyrri greinFengu steypu frá Eyjum
Næsta greinAfmælishelgi í Hvíta