Enn bætist í leitarhópinn

Seint í gærkvöldi var ákveðið að bæta í leitarhópinn og voru björgunarsveitir frá Borgarfirði, Akranesi og Suðurnesjum einnig kallaðar út til leitar af manninum sem fallið hafði niður í gegnum ísbrún við Sveinsgil.

Rúmlega 180 björgunarsveitarmenn hafa komið að björguninni frá því að útkallið kom um klukkan 18 í gær.

Unnið var við að moka í gegnum ísbreiðuna til að komast niður að ánni sem maðurinn féll í í alla nótt. Notast var við keðjusagir til að losa um ísinn og allan þann mannskap sem gat mokað og komið klaka og snjó frá slysstað.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var á staðnum í nótt og aðstoðaði við að ferja óþreytta björgunarsveitarmenn á staðinn til að halda áfram við leit og þreytta í hvíld inn í Landmannalaugar.

Nú í morgunsárið eru 53 óþreyttir björgunarsveitarmenn að byrja leit á slysstað.

Fyrri grein„Frábært að vinna þennan leik“
Næsta greinHlé gert á leitinni í kvöld