Engjavegi og Tryggvagötu lokað vegna torkennilegs hlutar

Engjavegi og Tryggvagötu var lokað í kringum gatnamótin við Vallaskóla síðastliðinn fimmtudag. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Um klukkan tíu í morgun fékk lögreglan á Suðurlandi tilkynningu um torkennilegan hlut sem drengir hefðu verið að vasast með við gatnamót Tryggvagötu og Engjavegar á Selfossi.

Við athugun lögreglu þótti rétt að meðhöndla hlutinn af varkárni og því var sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð til með búnað til að leysa verkefnið. Á meðan unnið er að úrlausn er vettvangurinn lokaður og bæði Engjavegur og Tryggvagata þar með í allt að 100 metra fjarlægð frá gatnamótunum. Þá hefur vesturhluta skólalóðar Vallaskóla verið lokað og nemendur og starfsmenn á yngsta stigi og í útistofum verið beðnir að halda sig inni.

Að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns, er ekki er talið að fólki stafi hætta af hlutnum nú eftir að vettvangi hefur verið lokað. Lögreglan mun upplýsa nánar um málið eftir að aðgerðum lýkur.

Undanfarna daga hefur lögreglan fengið tilkynningar um sprengingar á Selfossi og hafa heimatilbúnar sprengjur fundist, sprungnar og ósprungnar sem bera þess merki að um notast sé við ætandi efni ásamt öðrum efnum til að búa til sprengjurnar.

Fyrri greinMyndlistarnemar Fsu sýna í Listagjánni
Næsta greinBúið að eyða hlutnum