Engir venjulegir gluggar

„Við höfum verið með mismunandi DIY föndur í glugganum hjá okkur allt þetta ár og hefur verið hægt að fá upplýsingum hvernig það er gert á einblöðungum hjá okkur í versluninni.

Við ákváðum því að taka þetta skrefinu lengra um jólin og erum með nokkrar útfærslur af jólaskrauti sem hægt er að útbúa heima,“ segir Ásta Björg Kristinsdóttir, eigandi verslunarinnar Motivo á Selfossi en gluggaútstillingarnar í versluninni hafa vakið mikla athygli.

„Hugmyndin varð til fyrir jólin í fyrra þegar ég rakst á jólatré sem smíðað var úr spítum á Pinterest. Ég lagðist yfir það til þess að útbúa teikningar og mál. Jólatréð vakti svo mikla athygli í glugganum hjá okkur fyrir síðustu jól,“ segir Ásta aðspurð hvernig hugmyndin hafi orðið til að útstillingunum.

„Nú erum við aftur með jólatrén ásamt gardínum sem við settum texta á, pappírsstjörnur og iittala jólaskraut sem búið er til úr matarsóda, vatni og kartöflumjöli. Flestar hugmyndirnar hef ég fengið á Pinterest og svo breyti ég og bæti aðeins eftir því hvernig ég vil hafa þetta og aðlaga búðinni,“ segir Ásta en þess má geta að hún skrifar reglulega inn á Fagurgerði þar sem hún hefur verið dugleg að deila hugmyndum sínum að alls konar föndri.

Ásta segir að föndrið eigi það flest allt sameiginlegt að það er auðvelt í framkvæmd og tekur ekki langan tíma.

Kahler vasinn vinsæll í jólapakkann

Aðspurð út í jólaverslunin í ár segir Ásta að hún sé með mjög svipuðu móti og í fyrra. „Við sjáum örlítla aukningu enn sem komið er. Okkur finnst heimafólk orðið meðvitaðra um að versla í heimabyggð sem er mjög jákvætt. Við erum komin með svo fjölbreytt vöruúrval hér á staðnum að það ætti ekki að þurfa að sækja marga hluti út fyrir bæinn. Enda er miklu meira kósý að skottast hér um á milli verslana í rólegheitum, minni umferð og stressi en er í Reykjavík,“ segir Ásta.

Hvað varðar vinsælustu gjafirnar fyrir þessi jól segir Ásta að kertastjakar frá Iittala og vasarnir frá Kahler hafi þar vinninginn. „Fyrir hann eru það svo frábæru skyrturnar frá íslenska merkinu Huginn Muninn og slaufur frá Deathflower sem einnig er íslensk hönnun,“ segir Ásta að lokum.

Fyrri greinGóð þátttaka á taekwondomóti
Næsta greinVatnselgur á morgun