Enginn meðhjálpari eða kirkjuvörður í Skálholti

Hvorki er starfandi meðhjálpari né kirkjuvörður í Skálholtsdómkirkju yfir vetrartímann. Þá hefur það líka vakið athygli að það syngja ekki alltaf kórar í messum í Skálholti.

„Já, það er rétt, eins og er þá er enginn meðhjálpari. Það hefur verið þannig að undanförnu að bóndinn, sem jafnframt er ráðsmaður, er meðhjálpari, sérstaklega þegar mikið stendur til, en alls ekki alltaf. Nú eru nýir bændur í Skálholti og það hefur ekki verið gengið frá því ennþá hvernig störfum þeirra á staðnum verður háttað. Það er hinsvegar augljóslega þannig að Skálholtsdómkirkja þarf að hafa fastan meðhjálpara og kirkjuvörð,“ segir Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti aðspurður um málið.

Þá hefur það líka vakið athygli að það syngja ekki alltaf kórar í messum í Skálholti. „Já, það væri líka ánægjulegt að hafa oftar fastan kór, sérstaklega vegna þess að við höfum svo góðan organista. Oft kemur það þó ekki að sök vegna þess að það fólk sem dvelur í Skálholtsskóla, sérstaklega yfir vetrartímann eru venjulega Íslendingar sem syngja fullum hálsi í messunni“, segir Kristján Valur.

Fyrri greinSkemmtileg stemmning á fyrsta móti Hengils
Næsta greinGrænmetissúpa sem vermir og nærir kroppinn