Engin stór fornleifaverkefni á Suðurlandi í ár

Engir stórir fornleifauppgreftir eru áformaðir á Suðurlandi í ár en þó verður eitthvað um smærri verk að sögn Ugga Ævarssonar minjavarðar Suðurlands.

Það hljóta að verða að teljast vonbrigði enda alllangt síðan ráðist var í viðamikinn fornleifagröft á Suðurlandi þó Uggi segðist ekki vera úrkula vonar um að ráðist verði í fleiri uppgrefti en vitað er um á þessari stundu.

Nokkur athyglisverð verk verða þó í gangi að sögn Ugga. Þar má nefna að Fornleifafræðistofan mun rannsaka rústir í Skaftárhreppi, að Kúabót og Arfabót í Álftaveri. Til stendur að kanna aldur og hlutverk rústanna. Þá ætlar Margrét Hermanns-Auðardóttir fornleifafræðingur að grafa í skálarúst og fleira á Hellum í Landsveit. Annar fornleifafræðingur, Margrét Hallmundsdóttir, ætlar að halda áfram uppgrefti í Koti við Heklurætur.

Að sögn Ugga er fornleifaskráning á vegum Fornleifastofnunar Íslands að fara á fullt í Rangárþingi ytra og Ölfusi og telur hann það geysilega jákvætt að heilu sveitarfélögin skulu gangast fyrir kerfisbundinni fornleifaskráningu, ekki síst með tilliti til menningartengdrar ferðaþjónustu.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu.

Fyrri greinÍslandsbanki er bakhjarl Menningarveislunnar
Næsta greinAri Trausti heimsækir Árnessýslu