Engin pressa fyrir úrslitakvöldið

Gettu betur lið FSu 2023 Elín Karlsdóttir, Ásrún Aldís Hreinsdóttir og Heimir Árni Erlendsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sunnlenska.is kíkti á æfingu hjá Gettu betur liði FSu í vikunni. Þau Elín Karlsdóttir, Ásrún Aldís Hreinsdóttir og Heimir Árni Erlendsson voru pollróleg, þó að í kvöld fari fram stærsta viðureign Fjölbrautaskóla Suðurlands í 37 ár, þegar skólinn mætir Menntaskólanum í Reykjavík í úrslitum keppninnar.

„Ég myndi segja að við værum frekar róleg. Við erum búin að keppa oft í vetur, fara tvisvar í sjónvarpið og erum farin að ná vel saman. Þetta er skemmtilegt og við erum komin lengra í keppninni heldur en við bjuggumst við,“ segir Ásrún.

„Já, það er ótrúlegt að vera komin svona langt, það er sigur fyrir okkur. Skólanum hefur ekki gengið svona vel í 37 ár og við ætlum bara að gera okkar besta, við finnum ekki fyrir því að það sé nein pressa á okkur, það langar samt öllum til þess að okkur gangi vel og það er bara jákvætt,“ bætir Elín við.

„Það má alveg koma fram að við Elín höfum auðvitað aldrei tapað keppni í Gettu betur,“ grípur Heimir fram í brosandi. „En við ætlum bara að mæta þarna, fara upp á sviðið, gera okkar besta og sama hvað gerist þá ætlum við bara að njóta þess. Ég bjóst nú ekki einu sinni við að við myndum komast í sjónvarpið í upphafi.“

Forveri Hljóðnemans Með verðlaunagripinn frá 1986 í höndunum, en hann hefur verið geymdur í skólanum alla tíð síðan. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

En hvað einkennir gott Gettu betur lið?
„Við erum kannski ekki augljóslega týpurnar til að fara í þessa keppni en við eigum það öll sameiginlegt að taka eftir hlutum í daglegu lífi sem fólk þarf kannski ekkert að taka eftir. Og það eru síðan hlutirnir sem er oft spurt um í keppninni,” segir Ásrún. „Við höfum öll okkar styrkleika og erum öll að svara einhverju, annars værum við ekki komin svona langt.“

Elín einbeitir sér að að listgreinum, bókmenntum og raunvísindum, Ásrún að íslenskri landafræði og jarðfræði, auk þess sem þær deila vitneskju um kvikmyndir og tónlist. „Síðan veit Hemmi bara eitthvað allskonar drasl sem engum dettur í hug,“ segir Ásrún og þau hlæja.

„Já, ég er mikið wild card, en ég er mest með íþróttirnar og erlenda landafræði, þjóðhöfðingja og höfuðborgir,“ bætir Heimir við. Og öll fylgjast þau með fréttum líðandi stundar.

Til í slaginn! Elín, Ásrún og Heimir ætla að njóta stundarinnar í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Gula hafið mætir
Úrslitaþátturinn verður sendur út í beinni útsendingu frá Hljómahöllinni í Keflavík klukkan 20 í kvöld. „Gula hafið, stuðningsliðið okkar, mætir að sjálfsögðu, það verða rútuferðir og mikil stemning,“ segir Elín.

Þau segja liðið hafa æft vel í aðdragandi úrslitanna. „Þetta eru bara eins æfingar og áður, það hefur virkað vel en við erum á lengri æfingum núna. Stefán er hrikalega strangur við okkur og heldur uppi miklum aga,“ segja þau hlæjandi, en þjálfari liðsins er Stefán Hannesson, sem hefur þjálfað lið FSu undanfarin fimm ár og var sjálfur í Gettu betur liði skólans í fjögur ár frá 2007 til 2010.

Ein klassísk að lokum, er einhver hjátrú hjá liðinu?
„Við erum með okkar hefðir, förum að borða á Kúmen og tökum smá öndunaræfingar fyrir keppni,“ segir Heimir, áður en Ásrún stoppar hann af…

„Nei, það er engin hjátrú. Ég tek ekki þátt í svona bulli. Þau vildu fara að leggja í sama bílastæði og sitja sömu megin á sviðinu og ég sagði bara stopp. Það hefur engin áhrif á það hvernig okkur mun ganga í keppninni,“ segir Ásrún að lokum.

TENGDAR FRÉTTIR:
Sveinn Helgason: Komu FSu á kortið
Herdís Sigurgrímsdóttir: „Það var á við góðan Suðurlandsskjálfta“
Brúsi Ólason: „Röngu svörin ásækja mig“
Eyjólfur Þorkelsson: Sé ekki eftir sekúndubroti sem ég varði í FSu

Fyrri greinGina Tricot opnar á Íslandi í dag
Næsta greinMiðaldra 80´s unglingar halda áfram með bestu lögin