Engin María í Maríubúð lengur

„Mér líður eins og ég hafi verið að gifta frá mér barn, og er bara sátt,“ segir María Guðmundsdóttir á Kirkjubæjarklaustri.

Hún og Páll Ragnarsson sem hafa um áratugaskeið starfað í „kaupfélaginu“ á Klaustri hættu störfum þar um síðustu mánaðamót.

Árin eru orðin 33 síðan María hóf störf í versluninni, sem þá var í eigu Kaupfélags Vestur-Skaftfellinga. Síðastliðin 15 ár hefur hún verið verslunarstjóri. Það er því ekki óeðlilegt að heimamönnum sé tamt að kalla verslunina Maríubúð. Nú hefur María ákveðið að draga úr vinnunni og fer hún að vinna í mötuneytinu á elliheimilinu.

„Já ég fer í aðlögun þar,“ segir María. Það verður breyting því María hefur nánast alla tíð unnið í verslun, því áður en hún kom til starfa á Klaustri vann hún í KRON í Kópavogi. „Ég hætti þar á föstudegi, við fluttum austur á laugardegi og ég byrjaði að vinna í kaupfélaginu á mánudegi,“ segir hún.

Það var árið 1978. Á þeim tíma sem María hefur starfað í versluninni hefur margt breyst, þar á meðal nafnið og eigendurnir. Fyrst var þar Kaupfélag Vestur-Skaftfellinga eins og áður sagði, svo kom KÁ og keypti og svo í framhaldinu Kaupás, sem rekur þar Kjarval. Og þetta er alvöru sveitabúð, þarna má fá nánast allt.

„Já það tala margir um það við reynum að redda flestu,“ segir María. Hún segir ákvörðunina um að hætta verið tekna í fyrra. „Tilfinningin er bara góð, þetta er nokkuð álag að vera yfir svona verslun og kominn tími á að minnka við sig,“ segir hún. Og dagarnir hafa eflaust oft verið langir, ekki síst á sumrin þegar ferðamenn streyma um svæðið.

„Það hefur orðið gríðarleg aukning, hér koma bæði hópar sem eru að birgja sig upp fyrir hálendisferðirnar sem og þeir sem gista hér í kring, svo sem á tjaldsvæðunum,“ segir hún. Vissulega er verslunin minni yfir vetrartímann en alltaf nauðsynlegt að veita góða þjónustu. Og María segir það eflaust verða svolítið skrítið til að byrja að koma í búðina og þurfa ekki að opna eða loka og bera ábyrgð á því sem þar fer fram. „En ég fer ekki að rjúka til og raða í hillurnar býst ég við.“