„Engin krúttleg Disneyföt“

Berglind Rós Magnúsdóttir fatahönnuður frá Selfossi opnar í dag barnafataverslun undir sínu eigin merki, Beroma, í Faxafeni 9 í Reykjavík.

„Búðin er algjörlega mitt hugarfóstur og er enn í vinnslu. Mig langaði að vera með verslun sem seldi barnaföt með karkater jafnframt því sem vörurnar væru framleiddar á umhverfisvænan hátt og við mannúðlegar aðstæður. Mig langaði í mikið úrval fyrir stráka og jafnframt verslun sem væri í raun eins og „hjarta Beroma“,“ segir Berglind en hún er menntaður fatahönnuður frá hinum virta skóla Margrethe skolen í Kaupmannahöfn.

Berglind segir að allar vörurnar í versluninni séu vörur sem hana langar persónulega í. „Flestar vörurnar eru í töff götustíl, þú færð til dæmis engin krúttleg Disney föt í Beroma versluninni en þú færð meðal annars hljómsveitaboli, töff jakkaföt og sérvalin vintage barnaföt,“ segir Berglind.

Út fyrir landsteinana
„Markmiðið er að koma upp lítilli vinnustofu í versluninni þar sem við munum áfram hanna og framleiða Beroma vörur á þann hátt sem við höfum gert hingað til. Á sama tíma erum við að fara í stærri framleiðslu með Beroma línur sem seldar verða erlendis. Þannig næ ég áfram að halda þeim tengslum sem ég hef náð við viðskiptavini Beroma og fæ betur tilfinningu fyrir því hvað það er sem fólk óskar eftir,“ segir Berglind.

Beroma merkið stofnaði Berglind árið 2009 og hefur það vaxið og dafnað hratt síðan þá. Berglind segir að Beroma hafi óvart orðið til. „Eftir að eldri sonur minn fæddist þá átti ég oft í vandræðum með að finna föt sem mig langaði í á hann eða pössuðu nógu vel. Hann var langur og grannur en öll fötin virtust vera kassalega og því algjörlega ómöguleg á honum. Þegar fólk var farið að stoppa mig úti á götu og spyrja mig um fötin hans fór ég smátt og smátt að fá fyrirspurninr frá einstaklingum sem þróaðist yfir í fyrirspurnir frá verslunum og áður en ég vissi af annaði ég ekki eftirspurn og var farin að rekar lítið fyrirtæki í kringum þetta,“ segir Berglind.

Hún segir jafnframt að eftir að hún tók ákvörðun um að gera alvöru úr Beroma þá hafi vörurnar og merkið sjálft verið í stöðugri þróun. „Þetta er að fá sig ágæta mynd núna, bæði með opnun á versluninni og eins með því að fara út í stærri framleiðslu til að anna áhuga verslunareiganda,“ segir Berglind en hún hefur meðal annars verið að selja Beroma vörunar í Svíþjóð og í Bandaríkjunum.

Reykvíkingar stærsti kúnnahópurinn
Aðspurð afhverju Berglind ákvað að opna verslun í Reykjavík en ekki á Selfossi þar sem hún er sjálf búsett, segir Berglind að megin ástæðan sé að þannig komist hún nær þeim hópi af fólki sem teljast orðið fastakúnnar hjá henni. „Ég kemst því nær þeim viðskiptavinum sem ég vill geta hitt til að fá skoðanir og viðhorf til þess sem ég er að vinna með,“ segir Berglind.

Áður hafði Berglind verið í samstarfi við verslunina Hosiló á Selfossi. „Hosiló var á sínum tíma liður í því að koma Beroma út af heimilinu mínu og þangað sem almenningur gæti komið og skoðað án þess að finnast það líka vera að ryðjast inn á mann, sem fólk skiljanlega er feimið við. En eftir afar skemmtilegt ár í Hosiló var tekin ákvörðun um að stækka og þróa Beroma á þann veg að við hefðum einfaldlega ekki haft pláss sem skildi með Hosiló,“ segir Berglind.

Hún segir lítið vera af húsnæði í boði á Selfossi sem hentaði fyrir rekstur Beroma. Á endanum fékk hún mun hagstæðari leigukjör í Reykjavík en það sem henni hafði boðist á Selfossi. Berglind bætir því við að hún vonist til að sjá sem flesta Selfyssinga og aðra nærsveitunga í nýju búðinni í Reykjavík.

Sem fyrr segir opnar Beroma í dag, föstudag, nánar tiltekið klukkan 15:00. Ýmis opnunartilboð verða í gangi í versluninn í dag ásamt veitingum fyrir yngsta fólkið.

Facebooksíða Beroma

Fyrri greinLágflug og umferð um varplandið bönnuð
Næsta greinGrýlupottahlaup 4 – Úrslit