Engin busavígsla í FSu

Sú nýbreytni verður í upphafi skólaárs Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi að hin hefðbundna busavígsla verður lögð niður.

Þetta kom fram í ræðu Olgu Lísu Garðarsdóttur, nýráðins skólameistara, við skólasetninguna í morgun. Olga Lísa sagði að nýju fólki fylgdu nýjar áherslur en í stað busavígslu verður nemendum boðið til tónleika eða einhverskonar skemmtunar í næstu viku.

Þessi ákvörðun féll í misjafnan jarðveg hjá nemendunum sem ýmist klöppuðu eða bauluðu.

Nemendur við Fjölbrautaskóla Suðurlands eru á bilinu 1.030 til 1.040 á þessari önn og er kynjaskiptingin nokkuð jöfn, strákarnir ívið fleiri eða um 51%.

Skólasetningin fór fram í troðfullu íþróttahúsi skólans og er það í fyrsta skipti sem húsið er notað undir þessa athöfn.