Engin blómasýning í ár

Bæjarráð Hveragerðis samþykkti á fundi sínum fyrir skömmu að garðyrkju- og blómasýningin „Blóm í bæ“ verði haldin næst sumarið 2014.

Sýningin hefur verið haldin undanfarin þrjú ár, fyrst árið 2010.

Í tilkynningu frá bæjaryfirvöldum segir að ljóst sé að sýningin hafi tekist með miklum ágætum undanfarin ár. Hún hafi mikið gildi fyrir græna geirann og gróðurmenningu í landinu enda sé ríkur vilji til áframhaldandi þátttöku hjá þeim aðilum sem komið hafa að sýningunni undanfarin ár.

Nýjar áherslur verða lagðar fyrir sýninguna á næsta ári sem tryggt geta að hún haldi þeim vinsældum sem hún hefur notið. Við undirbúninginn verði horft til þess að græni geirinn í heild sinni fái sem best kynnt starfsemi sína. Jafnframt verði stefnt að þátttöku erlendra aðila á þessu sviði og þar sérstaklega horft til blómaskreyta.

Bæjarráð hefur þegar skipað undirbúningshóp sem nú þegar mun taka til starfa við undirbúning sýningarinnar árið 2014.