Engin banaslys í umferðinni á síðasta ári

Engin banaslys urðu í umferðinni í umdæmi lögreglunnar í Árnessýslu á síðasta ári og þarf að leita langt aftur til að finna sambærilegt ár.

Þrjú banaslys urðu af öðrum toga; eitt við sprengingu í Hveragerði, annað í hlíðum Ingólfsfjalls og hið þriðja í gjánni Silfru á Þingvöllum.

Þetta er meðal þess sem kom fram í skýrslu Ólafs Helga Kjartanssonar sýslumanns á fundi með lögreglumönnum og gestum skömmu fyrir áramót.

Þá fækkaði kynferðisbrotum talsvert, töldust 25 en voru 43 árið áður. Nokkurn veginn sami fjöldi líkamsárása átti sér stað milli ára, eða 53, þar af fimmtán meiriháttar árásir. Hinsvegar dró nokkuð úr umferðarlagabrotum á árinu, þau voru 1437 talsins 2010 á móti 1822 árið 2009. Tilvikum þar sem ökumenn reyndust ölvaðir við akstur fækkaði umtalsvert, úr 111 í 76. Stórbrunar í Árnessýslu voru sex talsins á árinu, einum færri en árið 2009.